Samantekt um þingmál

Sértryggð skuldabréf og fjármálafyrirtæki

433. mál á 153. löggjafarþingi.
Fjármála- og efnahagsráðherra.

Markmið

Að innleiða tvær Evrópugerðir um sértryggð skuldabréf og Evrópugerð um útfærslu óhefðbundinnar staðalaðferðar vegna markaðsáhættu. 

Helstu breytingar og nýjungar

Sértryggð skuldabréf eru sérstök tegund skuldabréfa sem lánastofnanir gefa út til að fjármagna útlán og aðra starfsemi sína. Helstu breytingar sem felast í frumvarpinu eru þær að útgefendur sértryggðra skuldabréfa þurfa ávallt að hafa nægt laust fé í tryggingasöfnum til að standa undir hámarksútflæði lauss fjár næstu 180 daga, sett eru skilyrði fyrir frestun gjalddaga sértryggðra skuldabréfa og mælt er fyrir um ítarlegri upplýsingagjöf útgefenda til fjárfesta. Þá munu fleiri brot en áður varða stjórnvaldssektum og hámark sektanna verður hækkað. Skuldabréf sem uppfylla skilyrði laganna verður unnt að markaðssetja sem „evrópsk sértryggð skuldabréf“ eða „evrópsk sértryggð skuldabréf (úrvals)“.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um sértryggð skuldabréf, nr. 11/2008.
Lög um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.

Kostnaður og tekjur

Ekki er gert ráð fyrir áhrifum á ríkissjóð.

Afgreiðsla

Samþykkt með minni háttar breytingum.

Aðrar upplýsingar

Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/2162 frá 27. nóvember 2019 um útgáfu sértryggðra skuldabréfa og opinbert eftirlit með sértryggðum skuldabréfum og um breytingu á tilskipunum 2009/65/EB og 2014/59/ESB.

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/2160 frá 27. nóvember 2019 um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 575/2013 að því er varðar áhættuskuldbindingar í formi sértryggðra skuldabréfa.

Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2021/424 frá 17. desember 2019 um breytingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 575/2013 að því er varðar óhefðbundna staðalaðferð vegna markaðsáhættu.


Síðast breytt 29.03.2023. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.